31.8.2009 | 07:47
Í stuttu máli
Öfugt við keppnina í fyrra ákváðum við að vera ekkert að stressa okkur í byrjun því að það var vel heitt seinnipartinn og til að minnka vökvatapið þá hlupum við saman í rólegheitum að fystu stöð og svo skyldu leiðir. Þá þegar átti Bikki í vandræðum með magann sem er ekki óskastaða í svona hlaupi en hann hafði átt í magaveseni dagana á undan.
Ég og Ásgeir héldum áfram en reyndum að fara frekar rólega upp fyrsta fjallið en ég fór þó aðeins hraðar. Vorum því í 1000 sæti á fyrstu stöð sem var nokkuð í takt við plan. Eftir þá stöð lenti ég fljótlega í ofþornun, varð óglatt o.s.frv. sem fylgir því. Fór því að ganga og reyndi að rétta mig við með vatnsdrykkju. Nokkrum km seinna datt ég í gang eða réttara sagt rauk ég í gang, tók framúr fjöldafólks á leiðinni upp næsta fjall Col du Bonhomme en þar uppi var svarta þoka og leiðin niður frekar krefjandi vegna þess. Í Les Chapieux.
Þar hitti ég Ásgeir aftur en hann hafði náð smá forskoti. Við fylgdumst síðan að að næsta fjalli þar sem leiðir skyldu og ég dúndraði upp fjallið í góðum gír. Þar uppi var líka svarta þoka og erfitt að finna leiðina niður.
Síðan gekk allt vel fyrir sig alla leið niður í Courmayeur og lappirnar voru gríðarlega sterkar bæði á leiðinni upp og niður og allt annað að hlaupa nú en í fyrra þegar þær gáfu sig strax niður fyrsta fjallið.
Reyndi að stoppa sem styst í Courmayeur og dreif mig upp í Bertone sem er yfirleitt versti parturinn af leiðinn því það hefur verið vel heitt á þeirri leið. Nú var veðrið hinsvegar skaplegra. Ákvað að taka það rólega niður í Arnuva til að koma sterkur inn í gönguna upp Grand col Ferret. Það gekk allt vel fyrir sig en hlaupið niður frá því fjalli tók vel úr löppunum og var ég orðinn vel sár í lærunum þegar niður í La Fouly var komið. Þar var orðið vel heitt og ákvað ég að kíkja á sjúkratjaldið til að láta kíkja á lappirna en ég hélt að ég væri kominn með blöðrur og slíkt. Það reyndist ekki vera en önnur stóra táin hafði fengið að finna fyrir því einhversstaðar á leiðinni og því viðkvæm. Lagði mig í hálftíma og var planið að stoppa styttra en ég hef gert í næstu stöð Champex, það gekk eftir og var ég kominn út fljótlega eftir að hafa fengið mér vel að borða.
Þarna var ég í ágætis gír en þó alveg klárt að ég myndi finna vel til í lærunum á leiðinni niður. Hálfa leið upp í Bovine fór ég að fá gríðarlegan verk aftan í hásinina og mátt stoppa trekk í trekk og láta það líða hjá. Kom í ca. fjórða hverju skrefi þannig að ekki sóttist ferðin hratt. Var ekki viss um hvað væri í gangi en taldi líklegast að þetta væri afleiðing meiðslanna sem ég hlaut fyrir 4 vikum síðan.
Leiðin niður í Trient gekk ágætlega en af og til fékk ég sveran verk ef fóturinn lenti illa.
Niður í Trient kom ég haltrandi og stökk hjúkrunarfólkið á mig um leið og ég gekk inn á stöðina enda enda gekk ég frekar asnalega til að forðast átak á hásinina. Þar fékk ég þann úrskurð að ég ætti að hætta því hætta væri á að þetta yrði verra (hásinin myndi rifna) og þá væri ég í vondum málum upp einhversstaðar upp á fjalli. Það hljómaði ótrúlega vel að taka bara rútuna heim, allir hinir komnir heim fyrir löngu og dágott ferðalag eftir ef ég héldi hlaupinu áfram. En ég var ekki tilbúinn til að hætta og ákvað því að fá verkjatöflur hjá hjúkkunum og leggja mig og athuga hvort þetta lagaðist ekki þannig að ég gæti hökt áfram. Var ekkert að stilla klukkuna enda nóg læti í kringum mann og maður endalaust að vakna en svo steinsofnaði ég og spratt á fætur þegar ég sá að klukkan var orðin hálf fimm. Skildu ekkert hvað hafði orðið af síðustu 3 tímum eða svo eða frá því að ég mundi eftir mér síðast.
Hélt af stað og var hásinin í ágætismálum enda teipuð þannig að átakið varð minna. Gekk vel á leið upp og svona ágætlega á leið niður, fékk smá verki en ekkert í líkingu við það sem var, nú var þetta meira stöðugur verkur frekar en að hann kæmi af og til af fullu afli.
Þegar ég lagði svo af stað frá Vallorcine jókst spennan stöðugt minnugur hversu skemmtilegt það var að hlaupa síðasta sprettinn niður í Chamonix. Tók fram úr mörgum á leiðinni upp síðasta fjallið og leið alltaf betur og betur, þegar loks var hægt að hlaupa utan í hlíðinni gaf ég í ásamt einum öðrum hlaupara og við brunuðum að síðustu stöð fyrir Chamonix. Það var virkilega gaman að hlaupa þarna og ég fann lærin skána óðum og klárt að ég myndi geta hlaupið niður í Chamonix (1000m drop) á fullu gasi. Eftir stutt stopp fræsti ég af stað og keyrði eins og ég gat niður í Chamonix, það var virkilega gaman enda tók ég framúr 71 hlaupara á þessum ca. 6 km svo það var heilmikið um að vera. Þurfti að stoppa af og til til að fá mér að drekka því svona niðurhlaup hreinlega soga allann vökva úr líkamanum. Þetta leið mun hraðar en í fyrra og fyrr en varði var ég kominn niður Chamonix og bara síðasti spretturinn eftir. Hljóp eins og ég síðasta km en var alveg búinn á því þegar í mark var komið, en eftir nokkrar sek var maður orðinn fínn aftur.
Skemmtilegu hlaupi lokið þrátt fyrir smá set-back og fátt sem toppar það að koma í mark í Chamonix.
Frásagnir og annað
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Til hamingju með hlaupið. Stór glæsilegt að klára þetta.
kveðja
Dofri
Dofri Þórðarson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:22
Bara snilld
Robbi (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 17:13
Þessi frásögn staðfestir það sem ég hef alltaf sagt, þú ert þrjóskari en sjálfur andsk...
Rannveig (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.